Frjáls hugbúnaður er númer eitt
Við notum öll margskonar stafræna tækni til að hafa samskipti og höfum gagn að þessu aukna upplýsingaflæði á milli okkar. Því meir sem við reiðum okkur á þessa tækni í athöfnum okkar, því mikilvægara er að skilja nokkur grunnatriði hins stafræna heims til valdeflingar okkar til lengri tíma. Eitt grunnatriði sem ég tala um í þessarri grein hefur með val á hugbúnaði að gera með tilliti til hugbúnaðarleyfis og aðgangi að frumkóða hans. Hugbúnaður getur verið ýmis öpp, forrit, stýrikerfi og önnur hugbúnaðartól. þegar við erum orðin meðvituð um mannlega þáttinn í gerð hugbúnaðar þá getum við sett okkur meginreglur og venjur okkur til valdeflingar. Þessi grein er fyrir notendur hugbúnaðar en ekki forritara, en samt sem áður er mikilvægt að nefna nokkur einföld atriði frá sjónarhorni þeirra til að geta valið hugbúnað okkar betur.
Þegar við höfum í höndunum stafræn raftæki eins og fartölvu eða farsíma, þá köllum við efnislegan part þeirra vélbúnað. Vélbúnaðurinn geymir og vinnur með gögn á ýmsa vegu og hver grunneining gagnanna getur verið í tveim mismunandi ástöndum sem við venjulega köllum 1 og 0. Hugbúnaður er gögn sem ákvarðar hegðun vélbúnaðar. Einn mikilvægur munur á milli vélbúnaðar og hugbúnaðar er að hægt er að afrita hugbúnað og dreifa afritum af honum nánast án neins kostnaðar á meðan vélbúnaður er efnislegur og óafritanlegur nema með miklum orku- og efniskostnaði.
Venjulega hefur hugbúnaðurinn ákveðið hugbúnaðarleyfi sem er lagatexti sem segir hvað er hægt að gera með hugbúnaðinn og hvað ekki. Séð er svo til þess að hugbúnaðarleyfum sé fylgt í gegnum stjórnvöld. Þegar hugbúnaðarleyfi takmarka notkun hugbúnaðar þá takmarka þau venjulega fólk sem vill uppfæra eða endurnota hugbúnaðinn. Sem dæmi þá gæti verið skrifað í hugbúnaðarleyfi að engir nema eigendur hugbúnaðarins geti uppfært, dreift eða sett í endurdreifingu uppfærðar útgáfur af hugbúnaðinum. Venjulegir notendur hugbúnaðarins verða venjulega ekki beint fyrir áhrifum slíkra takmarkana, en geta orðið fyrir áhrifum óbeint. Þegar notendur velja hugbúnað eru þeir að velja hvaða forritarar geta uppfært og endurnotað hugbúnaðinn í framtíðinni, á hvaða hátt, í hvaða kringumstæðum, í hvaða tilgangi o.s.frv.
Hugbúnaður hefur tvö form: frumkóða sem er skrifaður á máli sem auðvelt er fyrir mannfólk að skilja og vélakóða sem eru leiðbeiningar fyrir vélbúnað. Frumkóði fer í gegnum þýðingarferli sem umbreytir honum í vélakóða. Það er mögulegt að skilja og uppfæra vélakóða, en það ferli er vandasamt og það eru fáir sem geta gert það vel. Ennfremur keyrir það form hugbúnaðar á aðeins einni tegund af örgjörva og vélbúnaður getur innihaldið mismunandi tegundir af örgjörvum. Aftur á móti er hægt að þýða frumkóða fyrir alla örgjörva þar sem tiltekinn hugbúnaður á að keyra. Stundum er hugbúnaður útvegaður sem vefþjónusta þar sem hann keyrir aðeins á vélbúnaði þriðja aðila og er aðgengilegur með vafra eða öðrum forritum. Í því tilfelli er ómögulegt fyrir forritara sem ekki eru sjálfir þriðju aðilarnir að uppfæra eða endurnota hugbúnaðinn ef þriðji aðilinn deilir ekki frumkóða eða vélakóða hans. Niðurstaðan er að forritarar sem hafa í höndunum frumkóða hugbúnaðar eru þeir sem geta útfært breytingar á honum, skilið hann og þýtt fyrir mismunandi tegundir örgjörva.
Þá komum við að spurningunni hverskonar hugbúnaður er meira valdeflandi fyrir notendur ef við tökum til greina hugbúnaðarleyfi hans og hver hefur aðgang að frumkóða hans. Hugbúnaðarleyfi og aðgangur að frumkóða ákvarðar hvaða forritarar geta gert hvað með hugbúnaðinn. Eðli hugbúnaðarins og framtíðaruppfærslur hans ákvarðast af því hverjir forrita hann. Þá verður spurningin hverskonar forritarar með hvaða hvatir valdefla okkur meira með forritun sinni á hugbúnaðinum í dag og til framtíðar.
Tökum sem dæmi forritara sem búa til hugbúnaðarleyfi sem leyfir engum nema þeim sjálfum að forrita hugbúnaðinn og leyfa engum öðrum að sjá eða breyta frumkóða hans. Þó að það kosti nánast ekkert að leyfa öðrum að forrita eða endurnota hugbúnaðinn með hugbúnaðarleyfi sem leyfir það og aðgangi að frumkóða hans, þá er algengasti hvatinn til að gera það ekki hagfræðilegur. Þegar forritarar halda eftir öllum réttindum til að forrita eða endurnota hugbúnaðinn, þá geta þeir haft hann nákvæmlega eins og þeir vilja, og geta þannig skikkað notendur hans til að borga fyrir afrit af honum og til að nota hann. Meiri glóra er í svona hegðun þegar taka þarf afrit af vélbúnaði þar sem það kostar að gera það, en það kostar nánast ekkert að afrita hugbúnað. Einnig er hægt að láta notendur borga óbeint, til dæmis með því að láta hugbúnaðinn sýna auglýsingar eða afla upplýsinga um notandann (einfaldlega sagt njósnir). Ef frumkóða er ekki deilt er einnig einfaldara að fela vírusa í hugbúnaðinum og oft gera forritarar hugbúnaðinn flóknari og afkastaminni til að koma í veg fyrir ólöglegar afritanir á honum. Hugbúnaður með svona hugbúnaðarleyfi með óaðgengilegum frumkóða er kallaður einkahugbúnaður.
Tökum aftur á móti dæmi forritara sem deila frumkóða hugbúnaðarins og nota frjálsari hugbúnaðarleyfi sem leyfa öllum einfaldlega að forrita og endurnota hugbúnaðinn skilyrðislaust. Þannig forritarar gera sér grein fyrir kostnaðarleysi þess að deila afritum af frumkóðanum og búa ekki til gervihindranir til hagnaðar. Oft forrita þeir hugbúnað í sjálfboðavinnu fyrir aðra eða þá fyrir þá sjálfa sem notendur hugbúnaðarins. Stundum vinna þeir í fyrirtækjum sem hafa þörf á því að hugbúnaðurinn virki vel og vegna þess forrita þeir hann. Þeir geta líka tekið við þóknun fyrir að uppfæra hugbúnaðinn. Hugbúnaður með svona hugbúnaðarleyfi og aðgengilegan frumkóða er kallaður frjáls hugbúnaður.
Segjum sé svo að við værum að velja á milli einkahugbúnaðar og frjáls hugbúnaðar fyrir ákveðin verkefni og að frjálsi hugbúnaðurinn geti leyst þau nægilega vel. Segjum líka að við ætlum að setja mikinn tíma í það að læra að nota hugbúnaðinn eins og sérfræðingar. Valkosturinn sem eflir okkur meira er tvímælalaust frjálsi hugbúnaðurinn vegna þess að hann þarfnast ekki eins mikils trausts á höfunda hugbúnaðarins. Við þurfum ekki að treysta því að þeir hækki ekki verðið á hugbúnaðinum eða að þeir breyti honum á einhvern hátt vegna hagfræðilegra hvata til að sanka að sér meiri verðmæti frá notendum hans þar sem hvatinn er ekki fyrir hendi. Hann þarfnast minni trausts á því að forritarinn feli ekki vírusa í hugbúnaðinum vegna þess að frumkóðinn útvegar gegnsæi og aðrir forritarar og tæknifólk geta skoðað hann. Einnig er minni áhætta á vondri fjárfestingu í það að læra á hugbúnaðinn vegna þess að við þurfum ekki að treysta því að hagfræðilegir hvatar forritaranna geri hugbúnaðinn verri eða dýrari. Síðasti punkturinn er að frjáls hugbúnaður er meira okkar eign. Við notendurnir stjórnum hugbúnaðinum sem forritarar hans búa til en ekki öfugt. Kannski forritum við hann ekki sjálf, en við höfum valdið til að gera það eða til að fá einhvern sem kann til að gera það ef þess er þörf.
Niðurstaðan er að leiðin til valdeflingar í hugbúnaðarvali með tilliti til hugbúnaðarleyfis og aðgengi að frumkóða er að hafa frjálsan hugbúnað í forgangi, svo hugbúnað með fáar takmarkanir og síðast einkahugbúnað.
- Tögg:
- Frjálshugbúnaður