Handahófskennd lykilorð á minnið með PAO
Sem maður með mikinn áhuga á upplýsingaöryggi, þá hef ég oft leik að því að ímynda mér ýmsar ógnir og leiðir til varnar gegn þeim ef að þær skyldu raungerast. Eitt mikilvægt tilfelli er: Hvað myndi gerast ef maður glatar öllum sínum áþreifanlegu eignum og endar á götunni eða álíka? Í þessu tilfelli þá glatast öll okkar gögn, jafnt stafræn sem skrifuð, nema þau sem við höfum lagt á minnið. Við viljum tryggja það að svarið við spurningunni sé að ekkert sérstakt myndi gerast og að við stóískt höldum lífinu áfram eins og ekkert hafi í skorist eins og Tortímandi sem var við það að birtast. Venjulega er hægt að geyma gögn í höndum þriðju aðila, en hérna tala ég í samhengi einstaklinga sem vilja hámarks öryggi þar sem þeir eru þeir einu sem geta haft aðgang að gögnunum. Þetta tilfelli kallar á dulkóðun gagnanna með handahófskenndu lykilorði sem er erfitt að muna án minnistækni. Ég tileinka þessarri grein þeim tilgangi þar sem ég útskýri mína útfærslu á PAO minnistækninni fyrir lesanleg ASCII tákn.
Meira en 10 árum síðan þegar ég var í háskólanum, þá lá mér forvitni á því hvernig minnið virkar, með upphaflega markmiðið að standast próf. Ég lærði um hugarkort, en það sem hafði mest áhrif á mig var bókin You can have an Amazing Memory eftir Dominic O’Brien. Eftir að ég las hana og náði æfingu í því að leggja á minnið röð spila tveggja spilastokka á minna en 10 mínútum þá fann ég til mikillar valdeflingar og aukins skilnings á raunverulegum möguleikum mannlegs minnis. Það er frekar skrítið að okkur hafi ekki verið kennd minnistækni alveg frá upphafi skólagöngu þegar ljóst er að hún myndi létta okkur ýmislegt.
Nú ætla ég að greina frá notkun minni á PAO minnistækninni. Í samræmi við þá tækni, þá hef ég kóðað öll þau 94 lesanleg ASCII tákn sem ég nota í lykilorðin mín:
! " # $ % & ' ( ) * + , - . / 0 1 2 3 4 5 6 7 8 9 : ; < = > ? @ A B C D E F G H I J K L M N O P Q R S T U V W X Y Z [ \ ] ^ _ ` a b c d e f g h i j k l m n o p q r s t u v w x y z { | } ~
Hvert einasta þessarra tákna er kóðað samkvæmt PAO aðferðinni: Sem manneskja, atferli og hlutur. Til dæmis „H" er kóðað yfir í Harry Potter (manneskja) flýgur um á (atferli) kústi (hlutur). Til að auðvelda það að muna stafrófið, þá er hver bókstafur fyrsti bókstafur nafns manneskjunnar („H" fyrir Harry Potter). Það eru til staðar stórir og litlir stafir og til að greina á milli þeirra þá ákvað ég að manneskjur tengdar stórum stöfum séu karlar og manneskjur tengdar litlum stöfum séu konur. Þetta fyrirkomulag hjálpar líka með jöfnun á fjölda hvers kyns. Hver tölustafur og tákn sem ekki er bókstafur hefur ákveðna lögun sem minnir mig á manneskjuna sem hann er tengdur við, t.d. lítur „8" út eins og „snjókarl". Það eru einnig til pöruð tákn sem oft eru tengd, sem dæmi „{" er „Batman" og „}" er „Alfreð", aðstoðarmaður hans.
Það tók mig dágóðann tíma að búa til alla kóðunina. Að búa til 94 manneskjur, 94 atferli og 94 hluti þarfnast ákveðinnar sköpunargáfu og einnig þarf að passa að hver manneskja, atferli og hlutur séu ekki of lík öðrum manneskjum, atferlum og hlutum. Ástæða þess er að við ruglumst ekki þegar við reynum að muna það sem við höfum sett á minnið. Við þurfum að hafa bara eitt atriði sem við getum munað, en ekki mörg möguleg atriði. Það getur virst erfitt að finna einstök atferli, en gott er að hafa í huga að eitt atferli getur verið flóknara en eitt sagnorð. Sem dæmi getur sögnin „ber" orðið að „ber með diski". Þarna er hlutur í atferlinu í þessu tilfelli og það þarf að passa það að ekki séu til önnur atferli eða hlutir sem innihalda „diskur". Til að geta notað kóðunina í huganum þarfnast æfingar í að nota hana til að leggja raðir af táknum á minnið og eftir það á að vera hægt að fljótlega geta til um hvaða manneskju, atferlis og hlutar hvert tákn stendur fyrir og öfugt.
Til að leggja á minnið raðir tákna, samkvæmt PAO, þá ímynda ég mér þriggja tákna samsetningar á stöðum sem ég heimsæki í ímynduðu ferðalagi. Það er hægt að nota staði sem maður þekkir úr raunveruleikanum eða sem eru einfaldlega skáldaðir. Sem dæmi, ef ég ætla að leggja á minnið táknaröðina „H}pA=3" þá set ég á minnið tvær senur: Harry Potter (H) færir fram á veitingarplatta (}: Alfreð úr Batman) óhrein föt (p: Penny úr Big Bang Theory) og Aladín (A) borðandi (=: Kötturinn Grettir) cylon vélmenni (3: Cylon númer sex). Ég ímynda mér fyrstu senuna fyrir utan húsið mitt og aðra senuna við götuna við hliðina á húsinu. Venjulega eru þau lykilorð sem við viljum leggja á minnið lengri, kannski allt í 10 senur. Stundum samanstendur síðasta senan af aðeins einu tákni og í þeim tilfellum læt ég manneskjuna standa á svörtum diski sem flýgur í stað u.þ.b. hálfum metra yfir jörðinni og þegar senan samanstendur af tveimur táknum, þá læt ég hlutinn vera svartan bolta.
Fyrir nokkrum árum bjó ég til kóðun fyrir paraða tölustafi frá 00 til 99 þar sem til dæmis „86" er tengt „Homer Simpson". Hver tölustafur er tengdur einum bókstaf, í dæminu er „8" tengt „H" og „6" tengt „S", eða „HS" tengt „86". „HS" verður að „Homer Simpson". Fyrst að það tók mig langan tíma að kóða 100 pöruð númer yfir í manneskjur, atferli og hluti þá mun ég nota þá kóðun með kóðun hinna táknanna sem ég skýrði frá. Þannig er hægt að leggja á minnið styttri ferðalög fyrir táknaraðir sem innihalda númeraraðir. Til dæmis þá þarfnast táknaröðin „adude54348976" með þessarri kóðun bara þrjár samsetningar af manneskju, atferli og hlut (adu de54 348976) í stað fimm (adu de5 434 897 6). Í sumum tilfellum er meiri glóra í því að nota þessa styttri kóðun, en það er náttúrulega ekki nauðsynlegt að gera það.
Að nota þessa minnistækni til að leggja á minnið handahófskennd lykilorð er ekki nóg til að muna þau til lengri tíma. Til þess að gera það þarf að fara yfir þau í huganum og staðfesta að lykilorðið sé rétt af og til. Það er hægt að notast við minnistækni eins og „spaced repetition" þar sem lykilorðið er yfirfarið eftir eina klukkustund, síðar eftir 1 dag, 1 viku, 1 mánuð, 3 mánuði, 1 ár o.s.frv. Það tekur ekki langan tíma að fara yfir það og því er hægt að gera það oftar án mikillar fyrirhafnar. Hafa þarf í huga að til þess að leggja lykilorðið á minnið til lengri tíma þá þarf að nota ímyndað ferðalag sem við ætlum ekki að endurnota. Í þessu tilfelli finnst mér betra að nota staði þar sem ég hef ekki persónulega verið á og jafnvel staði sem eru skáldaðir.
Minnistækni er notuð á mismunandi hátt af hverjum og einum, en ég vona að mín notkun geti veitt innblástur. Það getur virst sem að notkunin þarfnist mikillar undirbúningsvinnu, en ég held að það sé þess virði til langs tíma fyrir þá sem vilja öryggistilfinningu í þeim hverfula raunveruleika sem við lifum í. Auðvitað þarf að hafa í huga að minnistækni er aðeins eitt af þeim tólum sem þarf til að halda gögnum okkar öruggum og aðgengilegum hvenær sem er, en ég held að hún sé ein af þeim mikilvægustu. Að æfa sig í minnistækni hefur einnig aðra kosti eins og betrumbætingu fljótandi greindar. Persónulega hef ég tekið eftir bættri einbeitingu, skýrari huga og ég man oftar eftir því sem ég dreymi. Æfing í tækninni er einnig nytsamleg til að leggja á minnið fleira en lykilorð þar sem hún hefur víðari notkunarsvið. Ég vona að þið hafið gaman af ef þið ákveðið að prófa.
- Tögg:
- Minnistækni
- Öryggi